Ein af mínum uppáhaldsóperum er Rigoletto eftir Verdi. Sennilega skýrist það að hluta til af því að þetta var fyrsta óperusýningin sem ég tók þátt; þá kórmeðlimur í Íslensku óperunni í Gamla-bíói. Kristinn Sigmundsson söng Rigoletto og Diddú var í hlutverki dóttur hans, Gildu. Þetta var skemmtileg sýning fyrir 20 árum síðan og söngvararnir voru frábærir.
Síðan þetta var hafa Verdi-óperur sjaldan verið á vegi mínum, því miður. Ég söng þó tvisvar minniháttar hlutverk í Aidu og Don Carlo í Ríkisóperunni í Berlín og þá hef ég sungið hina stórkostlegu Sálumessu í Musikverein í Vínarborg. Það var því kærkomið tækifæri þegar mér bauðst hlutverk leigumorðingjans Sparafucile í áðurnefndri óperu í Köln. Æfingar hófust í byrjun febrúar og frumsýning var um miðjan marsmánuð. Söngvararnir í aðalhlutverkum voru langflestir að syngja hlutverkin sín í fyrsta skipti: Markus Brück var Rigoletto, Anna Palimina var Gilda og hertogann söng Dmitry Korchak. Hljómsveitinni stjórnaði Alain Altinoglu og leikstjórn var í höndum frægar þýskrar leikkonu, Katharinu Thalbach. Katharina ákvað að fara frekar hefðbundna leið í að setja verkið upp og gekk með því beint í gin ljónsins, því ef það er eitthvað sem þýskir leikhúsgagnrýnendur þola ekki, þá eru það "hefðbundnar" uppfærslur.
Viðtökur á frumsýningu voru hins vegar mjög góðar og kunnu flestir áhorfendur að meta þá leið sem farin var í leikstjórninni. Söngvarar, hljómsveit og hljómsveitarstjóri fengu vægast sagt frábærar viðtökur og er það sannarlega mikill heiður og ánægja að vera hluti af teymi eins og þessu.
Á heimsíðu Kölnaróperunnar má finna skemmtilegt myndbandsbrot úr sýningunni og á þessari síðu, undir "umfjöllun" er vitnað í nokkrar blaðaumfjallanir sem snúa að undirrituðum.
Kær kveðja frá bökkum Rínar.
Bjarni Thor

Hjartanlega velkomin á nýju heimasíðuna mína. Markmiðið með henni er að gefa þeim sem áhuga hafa möguleika á kynnast mér og mínu starfi sem óperusöngvari. Hægt er að lesa um ferill minn, kíkja á dagatal og hlutverkalista, skoða myndir og myndbönd og lesa blaðaumfjallanir - en auðvitað bara þær jákvæðu! Á fyrstu síðunni ætla ég að setja inn fréttir af og til. Ef þið viljið fylgjast með þá hvet ég ykkur endilega til að ýta á "like" í Facebook kassanum hér til vinstri.
Ég held að skipti miklu máli fyrir listamenn að vera með heimasíðu því upplýsingamagnið sem flæðir um netið er mikið og gefur ekki alltaf rétta mynd af því sem leitað er eftir.
Að lokum langar mig að þakka kærlega fyrir innlitið á síðuna og vona að hægt sé að hafa eitthvað gagn eða gaman af lestri hennar.
Bjarni Thor

Óperan Lohengrin var frumsýnd í frönsku borginni Toulon í dag sunnudaginn 29. janúar. Sýningartíminn var óvenjulegur en óperan hófst klukkan 14:30 og var lokið um kvöldmatarleytið. Valin var sú leið að "hálf-sviðsetja" óperuna sem er eins konar millistig milli venjulegrar uppsetningar og konsertuppfærslu þar sem söngvarar standa fyrir framan hljómsveitina og syngja upp úr nótnabókunum.
Óperuhúsið í Toulon telst ekki meðal þeirra helstu í Frakklandi en tekur þó yfir 1400 manns í sæti. Í þessa uppfærslu var þó engu til sparað og má segja að valinn maður hafi verið í hverju rúmi. Þýski tenórsöngvarinn Stefan Vinke syngur Lohengrin, landi hans Ricarda Merbeth syngur Elsu, Janice Baird fer með hlutverk Ortrute og Anton Keremidtchiev syngur Telramund. Í hlutverki Heerrufer er ástralski baritóninn Simon Thrope. Undirritaður syngur Hinrik konung.
Ljóst var á frumsýningunni að þessi leið, að "hálf-sviðsetja" óperuna lagðist misjafnlega í fólk en franski leikarinn Frédéric Andrau setti verkið upp. Söngvurum, kór, hljómsveit og hljómsveitarstjóranum Giuliano Carella var hins vegar mjög vel tekið í sýningarlok með dynjandi lófataki og bravóhrópum.
Yfirleitt er nokkuð erfitt að sviðsetja Wagneróperur; söguþráðurinn á oft litla samleið með nútímaleikhúsi þar sem sögupersónur er oft af öðrum heimi og sögusviðið er ævintýralegt. Einungis óperan Meistarsöngvararnir frá Nürnberg telst getur talist "venjuleg" í þessum skilningi. Það er samt óskandi að einhver Wagnerópera sjáist á íslensku óperusviði á næstunni og ætti Eldborgarsalur Hörpu að henta óvenjuvel til þess.
Þrjár sýningar eru í það heila á Lohengrín í Toulon, seinni tvær 31. janúar og 3. febrúar.
Bjarni Thor

Ef þú hefur rambað inn á þessa síðu þá er það að segja að hún er ennþá í vinnslu og hér er því um prufukeyrslu að ræða. Ég bið þá sem hingað eru komnir endilega að kíkja á síðuna. Allar athugasemdir og leiðréttingar eru vel þegnar og bið ég að þær verði sendar á bjarnibass@simnet.is. Fyrst um sinn er síðan einungis á íslensku en innan skamms kemur hún líka á ensku og síðan vonandi líka á þýsku.
English
This homepage is still under construction but will open shortly. Now it is only in Icelandic, but soon it will also be in English and later in German too. Please fell free to send me an email: bjarnibass@simnet.is if you see any strange things or errors.
Deutsch
Diese Homepage ist noch in Bearbeitung. Momentan funktioniert nur der isländische Teil, aber bald folgen die englische und danach die deutsche Seite. Falls Sie irgendwelche Fehler entdecken, schicken Sie mir bitte eine E-mail an bjarnibass@simnet.is.
Bjarni Thor